IS / EN

Hvað er hverfisskipulag?

Hverfisskipulag er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari og þróa byggðina í takt við breyttar áherslur í samfélaginu. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum sínum eða lóðum.

Öll gróin hverfi borgarinnar munu fá sérstakt hverfisskipulag þar sem m.a. er mótuð stefna um breytingar á húsnæði, fjölgun íbúa, samgöngur, græn svæði og styrkingu verslunar og þjónustu í hverfunum. Markmiðið er einnig að bæta og fegra borgarumhverfið og hvetja til heilsueflandi og jákvæðra athafna. Jafnframt er lögð áhersla á að færa mótun borgarumhverfisins nær íbúum með virku samráði.

Hverfasjá hverfisskipulags

Í hverfasjá má á einfaldan hátt nálgast öll skipulagsgögn hverfisskipulags, s.s. skipulagsskilmála, skipulagsuppdrátt, greinargerðir og leiðbeiningarrit hverfisskipulags.

Hverfasjáin bætir til muna aðgengi íbúa að upplýsingum um skipulag í gildi og gerir umsóknar- og afgreiðsluferli vegna ýmiskonar breytinga á fasteignum einfaldara og skilvirkara.Margþættur ávinningur fyrir íbúa og borg

Með tilkomu hverfisskipulags verður mun einfaldara fyrir íbúa að gera breytingar á fasteignum sínum, s.s að byggja kvisti, svalir, viðbyggingar og fjölga íbúðum í þegar byggðum húsum.

Heimildir hverfisskipulagsins geta aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum í grónum hverfum og þannig bætt nýtingu ýmissa innviða, s.s. grunn- og leikskóla.

Heimildir hverfisskipulags miða einnig að því að styrkja fjölbreytta þjónustu og verslun í göngufæri við íbúana sem hefur jákvæð áhrif á mannlíf og samgöngur innan hverfanna.

Til hamingju Árbær

Fyrsta hverfisskipulagið tók gildi 5. nóvember síðastliðinn.

Fjölmargir íbúar í Ártúnsholti, Árbæ og Selási hafa með hverfisskipulagi fengið nýjar heimildir til viðbygginga og breytinga á fasteignum sínum, s.s. til að byggja kvisti, svalir og viðbyggingar og fjölga íbúðum í þegar byggðum húsum. Með tilkomu þessara nýju heimilda verða tímafrekar og kostnaðarsamar grenndarkynningar að mestu óþarfar og allt umsóknar- og afgreiðsluferli einfaldara og skilvirkara.

Hverfisskipulag Ártúnsholts, Árbæjar og Seláss markar tímamót í skipulagssögu Reykjavíkur og því full ástæða til að fagna þessum áfanga.Sex verkþættir í vinnuferli hverfisskipulags

Gerð hverfisskipulags fyrir hvert hverfi er flókið verkefni sem skipt er í sex verkþætti. 

Vinna við hverfisskipulagið hófst 2013 á því að greina stöðu og visthæfi allra hverfa í borginni. Árið 2015 hófst svo vinna við fyrstu hverfisskipulögin í Árbæ, Breiðholti, Háleiti- Bústöðum og Hlíðum.  Stefnt er að því að öll hverfi borgarinnar hafi fengið hverfiskipulag 2024.Skapandi samráðsferli

Hverfisskipulag er unnið í nánu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Samráðið stendur yfir allan verktímann og fylgir öllum verkþáttum hverfisskipulagsins. Í upphafi er samráðið opið og vítt en þrengist eftir því sem á líður vinnuferlið.