Sjö lykilstoðir hverfisskipulags

Hverfisskipulög eru unnin eftir gátlista um visthæfi byggðar

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-30 er skilgreindur gátlisti fyrir visthæfni byggðar. Gátlistanum er ætlað að gefa borgaryfirvöldum vísbendingar um frammistöðu mismunandi hverfa með tilliti til visthæfis, með það að markmiði að móta tillögur og aðgerðir til úrbóta.

Með vistvænum lausnum og umhverfisvænni hugsun mætum við kröfum samtímans um leið og við gætum með ábyrgum hætti að hag komandi kynslóða. Að koma á vistvænni byggð er liður í að nálgast markmið um sjálfbæra þróun í skipulagi borgarinnar.

 1. Samfélag

Við alla skipulagsgerð þarf að huga vel að áhrifum viðkomandi skipulags-áætlunar á íbúa og nærumhverfi þeirra.

Styðja þarf við fjölbreytta þjónustu og líflegt umhverfi sem þjónar íbúum og því samfélagi sem þeir mynda í ólíkum hverfum borgarinnar. Vel skipulögð hverfi miðast við að styrkja innviði nærumhverfisins og skapa staði þar sem fólk hittist, á samskipti og nýtur tómstunda sinna, meðal annars með hreyfingu og útiveru. Á tímum vaxandi hreyfanleika og fjarlægðar frá fjölskyldum er enn mikilvægara en áður að styrkja þjónustu og aðstöðu innan einstakra hverfa og hverfissamfélaga og vinna á móti skipulagi hefðbundinna svefnhverfa seinustu áratuga þar sem fólk hittist sjaldan og ferðast út úr hverfinu til að sækja sér afþreyingu og þjónustu.

Aðstaða innan hverfis þarf bæði að þjóna núverandi kröfum samfélagsins sem og framtíðaruppbyggingu og íbúaþróun innan hverfisins. Skipulag vistvæns hverfis á að miða að því að skapa heildstæðar einingar sem fjarlægja hindranir og hvetja til jákvæðra samskipta á milli mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa. Saman mynda þessir hópar hverfissamfélag sem þeir tilheyra og þekkja.

Upplýsingar um alla nærþjónustu, tómstundir og afþreyingu innan hvers hverfis þurfa að liggja fyrir. Þær þurfa að vera aðgengilegar svo að íbúar, gestir og þeir sem vinna á staðnum séu upplýstir um hvaða aðstaða sé til staðar í hverfinu og geti nýtt sér hana frá upphafi.

Þátttaka íbúa í rekstri og umsjón nærþjónustu og skipulagðrar afþreyingar og íþróttastarfsemi er lykilþáttur við velgengni hverfisins og í vellíðan þess samfélags sem þar lifir og hrærist.

Möguleikar íbúa til að hafa bein áhrif á ákvarðanir um viðhald, endurnýjun og uppbyggingu innan síns hverfis er einnig mjög mikilvægur liður í því að íbúar hverfisins geri hverfið og ákveðna staði innan þess að sínu. Því þarf mikið og stöðugt samráð við íbúa um skipulag hverfisins, uppbyggingu og þróun, og þær ákvarðanir aðrar sem hafa áhrif á stöðu þess og ágæti.

Íbúar þurfa og eiga að koma snemma að allri ákvarðanatöku um skipulag og aðra þætti sem varða rekstur og viðhald hverfisins, sem verður að miða að því að þróa hverfið áfram á vistvænum og hagkvæmum forsendum og í takt við þróun borgarinnar í heild sinni. Þetta stuðlar að betri sameiginlegum áherslum og að auknum skilningi á milli skipulagsyfirvalda, verktaka og íbúa borgarinnar.

Borgarumhverfið er einn helsti áhrifavaldur á heilsu og vellíðan íbúa. Rannsóknir sýna að með markvissum aðgerðum við hönnun bygginga og hverfa má stuðla að bættri heilsu og vellíðan, draga úr fjölda veikindadaga, auka framleiðni starfsfólks og bæta námsárangur í skólum.

Hagrænir þættir, svo sem efnahagur og atvinnulíf, eru ein af þremur grunnstoðum skipulagsgerðar sem hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Hinar grunnstoðirnar eru samfélag og umhverfi. Samspil þessara grunnstoða myndar kjarnann í skipulagsgerð á sjálfbærum forsendum. Blómleg starfsemi (atvinna, störf, verslun og viðskipti) er þannig lykilþáttur við visthæfi byggðar og skipulags. Við alla skipulagsgerð þarf því sérstaklega að hafa þessa þætti í huga, og ekki síst við skipulagsgerð fyrir einstaka borgarhluta, hverfi eða hverfishluta. Markmiðið er að styrkja innan hverfis líflega og fjölbreytta starfsemi sem skapar atvinnutækifæri og fjölbreytta þjónustu í heimabyggð. Styrkur og stöðugleiki sjálfbærs hverfisefnahags gefur gróskumikilli starfsemi færi til vaxtar til hagsbóta fyrir viðkomandi hverfi og hverfishluta. Samlegðaráhrif ýmiss konar starfsemi innan hverfis gefa einnig möguleika á hagræðingu og bæta aðgengi hverfisbúa að margvíslegri þjónustu í hæfilegri fjarlægð frá heimili og vinnustöðum.

Í gátlista um mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfis ákveðna þætti sem varða vistvæna þróun samfélagsins:

 • Lýðfræði (íbúaþróun, fjöldi, aldurssamsetning)
 • Íbúaþéttleiki
 • Skólahverfið
 • Húsnæði fyrir alla
 • Atvinna / störf
 • Framboð verslunar og þjónustu
 • Öryggi og heilsa
 • Þátttaka íbúa í ákvörðunum um skipulag innan skipulagssvæðisins

 1. Gæði byggðar

Skipulagsstarf að gæðum byggðar miðar að því að búa til staði og umhverfi þar sem fólk lifir og hrærist en ekki eingöngu vinnur og sefur.

Áhersla er lögð á að útivistarsvæði, gangstéttir og hverfi borgarinnar myndi umgjörð um lifandi og aðlaðandi staði sem ýta undir aukin og gagnkvæm samskipti. Andstæðan eru svæði sem fólk flýtir sér í gegnum til að komast eitthvað annað, eða, sem er enn verra, forðast að koma á. Byggingar og mannvirki sem endurspegla og styrkja sérkenni hvers staðar skapa bakgrunn lífvænlegs borgarumhverfis sem hvetur fólk til að nema staðar, dveljast og njóta. Slíkt borgarumhverfi virkar einnig hvetjandi á sjálfbæra samgöngumáta, svo sem göngu og hjólreiðar.  Góð staðarhönnun er einnig nauðsynleg við endurnýjun og uppbyggingu borgarumhverfis þar sem fólk kýs að búa og starfa. Þar skiptir mestu máli blöndun byggðar og byggðamynsturs ásamt fjölbreyttum valkostum í húsnæðismálum.

Þétt byggð og blandað byggðamynstur auka möguleika íbúanna til að sækja þjónustu og vinnu innan hverfis, velja sér húsnæði í næsta nágrenni sem hentar á hverjum tíma og draga úr ferðavegalengdum. Þétt, blönduð byggð leiðir þannig til styttri vegalengda í alla þjónustu og bætir nýtingu verðmæta. Best er að þétta byggð á svæðum sem eru ónýtt eða hefur verið raskað á einn eða annan hátt. Þetta getur til dæmis átt við um gömul iðnaðarsvæði og atvinnulóðir þar sem starfsemi hefur verið hætt eða þörf er á að flytja hana, eða um lítt nýtt jaðarsvæði núverandi byggðar og opinna svæða.

Torg og önnur almenningsrými eiga að vera áhugaverðir áfangastaðir sem gera borgar- og hverfisbúum kleift að halda viðburði og njóta lífsins.

Þau eru mikilvæg tæki til að viðhalda mannlífi og þjónustu innan hverfis. Umhverfisgæði hverfisins aukast og þörfin fyrir ferðalög út úr hverfinu minnkar.

Í gátlista um mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfis ákveðna þætti sem varða vistvæna þróun í borgarumhverfinu:

 • Byggðamynstur
 • Göngufjarlægðir
 • Gatan sem borgarrými
 • Almenningsrými
 • Veðurfar
 • Útivistarsvæði
 • Gróðurþekja
 • Borgarbúskapur
 • Hönnun og arkitektúr
 • Staðarandi

 1. Samgöngur

Skipulag vistvænnar byggðar helst í hendur við vistvænar samgöngur.

Tryggja þarf að verslun og þjónusta fái að dafna innan allra hverfa borgarinnar og helst í göngufjarlægð frá öllum íbúum viðkomandi borgarhluta og hverfis. Gangandi og hjólandi umferð þarf ásamt almenningssamgöngum að setja í forgang á kostnað einkabílsins, sérstaklega þegar um styttri vegalengdir er að ræða. Í sjálfbæru samfélagi þarf fólk að hafa tækifæri til að sækja vinnu og heimsækja vini og vandamenn án þess að þurfa á einkabíl að halda. Ofuráhersla seinustu áratuga á einkabílinn er ein meginorsökin fyrir aukinni mengun og ónæði í hverfum borgarinnar. Takmarkaðar almenningssamgöngur geta valdið aukinni einangrun hjá hópi fólks sem hefur ekki tækifæri til að ferðast um á einkabíl. Fólk á að hafa aðgengi að þjónustu og verslun í nærumhverfi sínu án þess að þurfa að reiða sig á einkabíl til ferðarinnar.

Hefðbundin viðmið um fjölda bílastæða á hverja íbúð þarf að endurskoða. Yfirdrifið framboð af fríum og ódýrum bílastæðum dregur úr vilja fólks til að nýta sér almenningssamgöngur, jafnvel þótt þær séu góðar. Draga þarf úr viðmiðum um fjölda bílastæða og fækka þeim verulega sérstaklega á nýbyggingarreitum og setja kvaðir á fyrirtæki og stofnanir um að taka upp bílastæðagjöld.

Umferðarstjórnun er lykilatriði við að hvetja fólk til göngu eða hjólreiða.

Forgangur gangandi og hjólandi vegfarenda er mikilvægur á öllum helstu götum borgarinnar til að auka öryggi við þess háttar ferðamáta.

Mikilvægt er að strax á skipulagsstigi séu gerðar ráðstafanir til draga úr umferðarhraða og auka þannig öryggi í hverfum borgarinnar, draga úr mengun og fækka hljóðvistarvandamálum. Almenningssamgöngur þurfa að vera aðgengilegar, áreiðanlegar og öruggar, og biðstöðvar skjólgóðar og vistlegar. Á á öllum skipulagsstigum þarf að huga að vistvænum samgöngum.

Samgöngukerfi hafa bein áhrif á umhverfisgæði með útblæstri frá farartækjum, umferðarhávaða og svifryksmengun. Ennfremur hafa samgöngukerfi veruleg bein áhrif á upplifun manna af borgarumhverfi. Í gildi er Samgöngustefna Reykjavíkur, Samgöngustefna fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar, Loftslags- og loftgæðastefna og Hjólreiðaáætlun þar sem nánar er kveðið á um markmið og aðgerðir í samgöngumálum í Reykjavík.

Í gátlista um mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfishluta þætti sem varða vistvæna þróun samgangna innan viðkomandi hverfishluta:

 • Almenningssamgöngur
 • Bílastæðakvaðir
 • Hjólreiðar

 1. Vistkerfi og minjar

Reykvíkingar búa við fjölbreytta flóru opinna svæða sem setja sterkan svip á borgarumhverfið.

Fjölbreytt lífríki, heilbrigð vistkerfi og opin svæði innan borgarmarkanna stuðla að bættum lífsgæðum borgarbúa.

Þau hafa einnig jákvæð áhrif í efnahagslegu tilliti með því að laða að íbúa, gesti og ferðamenn sem nota svæðin til afþreyingar og útiveru. Náttúrusvæði jafnt innan borgarmarka sem í jaðri byggðar ber að vernda og efla með markvissum hætti með það að markmiði að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og jafnvægi í vistkerfum. Vel útfærð græn svæði og borgargarðar nýtast borgarbúum til útivistar, auka lífsgæði og stuðla að bættri lýðheilsu.

Tré og annar gróður innan borgarinnar bindur jarðveg, veitir skjól og mildar alla ásýnd borgarumhverfisins. Gott samspil opinna svæða og byggðar er því mikilvægt, og gæta þarf þess að aðgengi að náttúrulegum svæðum sé tryggt án þess að ganga á lífríki eða vistkerfi þeirra. Nábýli manns og náttúrusvæða hefur einnig jákvæð áhrif á hverfisvitund íbúa og staðaranda þar sem fólk upplifir svæðin sem hluta af nánasta umhverfi sínu. Skipulag borgarinnar veitir mörg tækifæri til að vinna með samspil byggðar og opinna svæða, sem og að vernda einstök svæði innan borgarinnar sérstaklega þar sem þess er þörf og ástæða þykir til vegna lífríkis, jarðfræði, minja eða annarra þátta sem einkenna viðkomandi svæði og gefa þeim sérstöðu í borginni. Þessi svæði falla undir hverfisvernd samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010. Nokkur þessara svæða eru friðlýst samkvæmt VII. kafla náttúruverndarlaga nr. 44/1999 eða eru á náttúruminjaskrá.

Víða í borginni eru menningarminjar á fornminjaskrá og njóta verndar sem slíkar. Búið hefur verið í Reykjavík síðan fyrstu landnámsmennirnir stigu á land. S

kráðar fornleifar í landi Reykjavíkur eru um 160 en einnig eru margar fornleifar óskráðar, svo sem í Kvosinni og á eyjum Kollafjarðar. Flestar fornleifar er að finna á útivistarsvæðum borgarinnar. Aðrar minjar hafa glatast eða farið í kaf vegna byggingarframkvæmda. Mikilvægt er að halda við örnefnum í borgarlandinu. Með varðveislu þeirra eru treyst tengsl nútímamanna við sögu borgarsvæðisins og menningu fyrri tíma.

Rétt eins og orka er vatn takmörkuð auðlind og ber að nýta hana á ábyrgan hátt með langtímahagsmuni að leiðarljósiRétt meðhöndlun ofanvatns getur skipt sköpum fyrir vistkerfi bæði innan og utan marka borgarinnar. Vistvænar útfærslur á fráveitukerfum og ofanvatnslögnum eru því mikilvægir þættir við útfærslu vistvænna hverfa.

Í gátlista um mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfishluta þætti sem varða vistvæna þróun vistkerfa og minja:

 • Náttúru- og hverfisverndarsvæði
 • Náttúrufar og lífríki
 • Jarðmyndanir
 • Strandlengja
 • Ár og vötn
 • Menningarminjar
 • Vatnsverndarsvæði
 • Ofanvatn
 • Borgarvernd eldri byggðar

 1. Orka og auðlindir

Orka er takmörkuð auðlind og ber að nýta hana á ábyrgan hátt.

Mestöll orka sem nýtt er í borginni er tiltölulega umhverfisvæn í samanburði við grannlönd en hafa ber í huga að vinnslan fer ekki fram án umhverfisáhrifa.

Á líftíma byggingar má ná fram verulegum sparnaði með bættri orkunýtingu, þrátt fyrir að upphæðirnar virðist ekki miklar til skamms tíma. Ennfremur má nýta þá orku sem sparast með vistvænni hönnun byggðar til samgangna og ýmissar atvinnustarfsemi. Skipulagsáætlanir þurfa að taka mið af loftslagsbreytingunum sem þegar eru hafnar. Þar þarf að tryggja að áhrif uppbyggingar í borginni auki ekki á losun gróðurhúsalofttegunda.

Lykilatriði við útfærslu vistvænna hverfa er að úrgangur sé rétt meðhöndlaður og dregið úr myndun hans. Umhverfisáhrif frá úrgangi í nútímasamfélagi eru umtalsverð og íbúum sýnileg. Tryggja þarf gott aðgengi að úrgangsílátum og grenndarstöðvum fyrir bæði íbúa og losunaraðila en takmarka á sama tíma akstur losunarbíla um hverfin. Einnig þarf að tryggja aukna flokkun úrgangs til endurvinnslu. Skoða þarf alla úrgangsflokka á líftíma hverfisins, frá byggingu til viðhalds, reksturs og niðurrifs. Stefna um flokkun úrgangs tekur mið af áætlun Reykjavíkurborgar um endurvinnslu og förgun úrgangs.

Vatn er takmörkuð auðlind og ber að nýta hana á ábyrgan hátt með langtímahagsmuni að leiðarljósi.

Við skipulag uppbyggingar af öllum stærðum og gerðum þarf að huga að sjálfbærri nýtingu vatns með það að markmiði að draga úr vatnsnotkun og auka endurnýtingu vatns, meðal annars með regnvatnssöfnun til ýmissa nota.

Land er einnig takmörkuð auðlind sem fara þarf varlega með. Ábyrg afstaða til nýtingar lands er því augljóslega mikilvægur liður við skipulag og þéttingu vistvænnar byggðar. Endurnýting og endurskipulagning úr sér genginna iðnaðarsvæða og illra nýtra jaðarsvæða á því að setja í forgang þegar taka þarf land undir nýja byggð.

Í borginni er mikið af trjám. Trén veita ýmsa vistþjónustu, og er ein þeirra upptaka koldíoxíðs (CO2) úr andrúmslofti og binding kolefnis (C) í lífmassa. Skógar eru áhrifamestir á þurrlendi jarðar við að taka koldíoxíð úr umferð í lengri tíma í senn. Markviss ræktun trjá- og runnagróðurs, jafnt innan byggðarinnar og í jaðri hennar, er því lykilatriði við skipulag byggðar.

„Flatarmál garða/trjáræktar og runnabeða í byggðum hverfum Reykjavíkur er um 890–1.160 (95% öryggismörk) hektarar. Kolefnisforði sem bundinn er í trjám á þessu svæði er á bilinu 12.800–19.800 tonn C. Árleg kolefnisbinding trjáa á þessu svæði nemur um 1.400–2.000 tonnum.“

- Gústaf Jarl Viðarsson. Kolefnisforði og árleg kolefnisbinding trjáa í byggðum hverfum Reykjavíkurborgar. BS-ritgerð við HÍ, maí 2010, bls. iv.

Í gátlista um mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfishluta þætti sem varða vistvæna þróun í orku- og auðlindamálum:

 • Orkunotkun
 • Vatnsnotkun
 • Úrgangsstjórnun
 • Land
 • Kolefnisbinding

 1. Mannvirki

Byggingar og önnur mannvirki eru viðamestu notendur náttúrulegra auðlinda og stór hluti losunar gróðurhúsaloftegunda kemur frá byggingum og framleiðslu byggingarhluta.

Aðgæsla við val á byggingarefnum og byggingartæknilegum útfærslum getur stuðlað að bættu visthæfi bygginga og hverfa, bætt heilsu íbúa og aukið öryggi á byggingarstað. Við val byggingarefna á að taka tilliti til visthæfis og ýta undir framþróun í vistvænni byggingartækni. Góð einangrun byggingar hjálpar til við að draga úr orkuþörf og bætir hljóðvist í híbýlum.

Í gátlista um mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfishluta þætti sem varða vistvæna þróun mannvirkja:

 • Þjónustustofnanir
 • Opinberar stofnanir
 • Umhverfisvottaðar byggingar
 • Byggingarefni
 • Endurnýting eldra húsnæðis
 • Endurnýting núverandi bygginga

 1. Náttúruvá

Borgin er í nánd við þekkt eldvirk svæði á Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftar eru tíðir.

Jarðskjálftahætta er til staðar á öllu höfuðborgarsvæðinu en fer minnkandi frá suðri til norðurs og austurs til vesturs. Mannvirkjum á sprungusvæðum sem enn eru talin virk getur stafað hætta af jarðsprunguhreyfingum. Hætta á eldgosum er mest suður og austur af höfuðborgarsvæðinu og svæðum sem liggja lágt getur stafað hætta af hraunstraumi. Á lágsvæðum við ströndina í vesturhluta borgarinnar er hætta á sjávarflóðum þegar saman fer mikil flóðhæð og hækkun sjávarborðs vegna veðurs og ölduálags við ströndina. Hætta af völdum skriðufalla og snjóflóða er einkum bundin við Kjalarnes þar sem veðurfar getur einnig haft áhrif á ákvarðanir í skipulagi. Við skipulag byggðar er nauðsynlegt að taka tillit til þessara þátta og gera ráðstafanir til að draga úr hættu af völdum náttúruhamfara eins og frekast er unnt.

Í gátlista um Mat á visthæfi byggðar og skipulags er lögð áhersla á að skoða innan viðkomandi hverfishluta þætti sem varða vistvæna þróun í tengslum við náttúrvá:

 • Ofanflóð
 • Flóðahætta
 • Hækkun sjávarstöðu
 • Sprungusvæði, jarðhræringar