Sex verkþættir 

Vinna við hverfisskipulag allra hverfa fylgir sömu sex verkþáttum og er unnin af þverfaglegum ráðgjafahóp arkitekta, landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga og verkfræðinga undir stjórn skipulagssérfræðinga borgarinnar. 

Fyrsti verkþátturinn er gerð verklýsingar þar sem staða hverfisins er greind og fyrirhugaðri skipulagsvinnu lýst. Annar verkþáttur er stefnumótun þar sem lögð eru fram drög að framtíðarsýn fyrir hvert hverfi. Skilmála- og tillögugerð fylgir þar á eftir en síðasti verkþátturinn er kynningar- og samþykktarferli. Nánari upplýsingar um verkþætti hverfisskipulagsins má finna til hliðar.

  1. Verklýsing

Fyrirhugaðri skipulagsvinnu, áherslum borgaryfirvalda og samráði við íbúa og hagsmunaaðila er lýst. Þegar skipulags- og samgönguráð hefur samþykkt verklýsingu fer hún í opinbera kynningu.

  1. Stefnumótun

Lagðar eru fram hugmyndir að framtíðarsýn og skipulagsskilmálum sem miða að því að styrkja og bæta hverfið.

  1. Samráð

Eitt markmið verkefnisins er að færa mótun skipulags nær íbúum og hagsmunaaðilum. Rýnihópar íbúa og íbúafundir eru mikilvægur þáttur í ferli hverfisskipulags en einnig er haft samráð við einingar og svið Reykjavíkurborgar sem skipulagið snertir, ásamt opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem Reykjavíkurborg ber samkvæmt lögum að hafa samráð við.

  1. Skilmálagerð

Kortlagðar eru skipulagsheimildir í gildandi deiliskipulögum og þær felldar inn í nýjar skipulagsheimildir sem byggja á tillögu að hverfisskipulagi. Mið er einnig tekið af óskum íbúa og hagsmunaaðila sem fram komu í samráðsferlinu auk fyrirspurna og umsókna íbúa sl. 10 ár til skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík varðandi breytingar og viðbætur á húsnæði. Markmiðið er að einfalda skipulagsyfirvöldum framfylgni skipulagsáætlana og borgarbúum að sækja um breytingar á eigin fasteignum. 

  1. Tillögugerð

Stefnumótunartillögur og hugmyndir sem tekið hafa mið af niðurstöðum samráðsferlis eru felldar inn í heildstæða tillögu að hverfisskipulagi fyrir hverfið. Afrakstur vinnunnar er fullmótuð tillaga að hverfiskipulagi sem birtist í greinargerð, skipulagsuppdráttum og skýringarmyndum.

  1. Kynningar- og samþykktarferli

Eftir að tillaga að hverfisskipulagi hefur verið samþykkt af borgaryfirvöldum er hún lögð fram til kynningar fyrir íbúa og hagsmunaaðila. Á þessu tímabili gefst tækifæri til að koma ábendingum og athugasemdum á framfæri. Þegar borgaryfirvöld hafa tekið ábendingar og athugasemdir til formlegrar umfjöllunar er gengið frá tillögu og hún send til samþykktar hjá Skipulagsstofnun og auglýsingar í B deild Stjórnartíðinda. Áætlað er að kynningar- og samþykktarferli tillögu að hverfisskipulagi sé allt að 6 mánuðir.