Leitast er eftir ríku samráði við íbúa, stofnanir og fyrirtæki við tillögugerð
Samráð frá öllum hliðum
Til hagræðis eru samráðsaðilar flokkaðir í þrjá hópa. Samráðinu er sérstaklega ætlað að gefa þessum aðilum rödd í skipulagsferlinu samhliða því að leita eftir góðum hugmyndum sem stuðlað geta að betra og vistvænna hverfisskipulagi.
- Íbúar og hagsmunaaðilar
- Einingar og svið Reykjavíkurborgar
- Opinberar stofnanir og fyrirtæki
Til að ná til sem flestra er mismunandi samráðsaðferðum beitt. Í rýnihópum sem Gallup heldur utan um er rætt um fyrstu drög að framtíðarsýn hvers hverfis. Niðurstöður rýnihópanna eru síðan notaðar til að þróa áfram hugmyndir að hverfisskipulagi. Hluti af samráði hverfisskipulags er einnig að fá nemendur í sjöttu bekkjum hverfisskólanna til að smíða módel af sínu hverfi. Á árunum 2015 til 2017 tók um þúsund nemendur í 21 hverfisskóla þátt í þessari vinnu sem kölluð er Skapandi samráð. Á íbúafundum eru síðan kynnt drög að framtíðarsýn hverfisins auk þess sem módelin eru notuð sem tæki fyrir íbúa til að ræða stöðu hverfisins og til að koma á framfæri hugmyndum og athugasemdum í gegnum sérhannað miðakerfi skapandi samráðs. Allar hugmyndir sem koma fram á fundunum eru skráðar í stafrænan kortagrunn, Miðasjá, sem finna má hér á síðunni, og stuðst við þær í áframhaldandi vinnu við hverfisskipulag.
Auk þessa eru haldnir fundir með hverfisráðum, íbúaasamtökum, hagsmunaaðilum, einingum og sviðum borgarinnar og opinberum aðilum sem hverfisskipulagið varðar. Þegar líður að lokum skipulagsvinnunar eru niðurstöður úr miðasjá, rýnihópum og samráðsfundum notaðar til þess að móta endanlega tillögu að hverfisskipulagi.