Kynning á tillögum fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás lokið

Næstu skref

Sýningu á tillögum að hverfisskipulagi í Ártúnsholti, Árbæ og Selási lauk 17. mars síðastliðinn. Fjöldi íbúa og hagsmunaaðila kom á sýninguna og sótti viðburði. Allnokkrar athugasemdir og ábendingar komu frá íbúum og umsagnaraðilum.

Vinna er hafin við úrvinnslu athugasemda en allar athugasemdir og ábendingar verða vandlega skoðaðar.  Í framhaldinu verður lögð fram endanleg tillaga að hverfiskipulagi í Ártúnsholti, Árbæ og Selási til samþykktar í skipulags- og samgönguráði og borgarráði.  Tillögur verða síðan sendar til Skipulagsstofnunar til yfirferðar. Hverfisskipulag í þessum hverfum tekur síðan gildi eftir samþykkt borgaryfirvalda og auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Stefnt er að því að hverfisskipulag í þessum hverfum taki gildi í sumar.  Þá verður opnuð ný hverfasjá. Þar verður hægt að nálgast rafrænt allar upplýsingar um skipulagsheimildir í hverfunum þremur.

Opnun sýningar á tillögum fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás 3. feb 2019

Íbúafundur í Árbæjarskóla 7. feb 2019

Skipulag hverfa uppfært með vistvænum og nútímalegum áherslum

Hverfisskipulag Reykjavíkur er ný skipulagsáætlun sem ætlað er að undirbúa gróin hverfi í borginni fyrir áskoranir framtíðarinnar. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030 eru lagðar línur að framtíðarþróun borgarinnar og hverfanna og sett fram sú stefna að gróin hverfi skuli verða sem mest sjálfbær og vistvæn.

Öll gróin hverfi borgarinnar munu fá sérstakt hverfisskipulag þar sem m.a. er mótuð stefna um breytingar á húsnæði, fjölgun íbúa, samgöngur, græn svæði og styrkingu verslunar og þjónustu í hverfunum. Markmiðið er einnig að lagfæra og fegra borgarumhverfið og hvetja til heilsueflandi og jákvæðra athafna. Jafnframt er lögð áhersla á að færa mótun borgarumhverfisins nær íbúum með virku samráði. Í þessari vinnu gegnir hverfisskipulagið veigamiklu hlutverki.

10 01 02 03 04 05 06 09 08 07

Reykjavík skiptist í tíu borgarhluta og innan þeirra eru alls 26 hverfi sem hvert fær sitt eigið hverfisskipulag.

Samráð

Skapandi samráð við mótun hverfisskipulags

Hverfisskipulag er unnið í nánu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Samráðið stendur yfir allan verktímann og fylgir öllum verkþáttum hverfisskipulagsins. Í upphafi er samráðið opið og vítt en þrengist eftir því sem á líður vinnuferlið.

Til að ná til sem flestra er mismunandi samráðsaðferðum beitt. Í rýnihópum sem Gallup heldur utan um er rætt um fyrstu drög að framtíðarsýn hvers hverfis. Niðurstöður rýnihópanna eru síðan notaðar til að þróa áfram hugmyndir að hverfisskipulagi. Hluti af samráði hverfisskipulags er einnig að fá nemendur í sjöttu bekkjum hverfisskólanna til að smíða módel af sínu hverfi. Á árunum 2015 til 2017 tók um þúsund nemendur í 21 hverfisskóla þátt í þessari vinnu sem kölluð er Skapandi samráð. Á íbúafundum eru síðan kynnt drög að framtíðarsýn hverfisins auk þess sem módelin eru notuð sem tæki fyrir íbúa til að ræða stöðu hverfisins og til að koma á framfæri hugmyndum og athugasemdum í gegnum sérhannað miðakerfi skapandi samráðs. Allar hugmyndir sem koma fram á fundunum eru skráðar í stafrænan kortagrunn, Miðasjá, sem finna má hér á síðunni, og stuðst við þær í áframhaldandi vinnu við hverfisskipulag.

Auk þessa eru haldnir fundir með hverfisráðum, íbúaasamtökum, hagsmunaaðilum, einingum og sviðum borgarinnar og opinberum aðilum sem hverfisskipulagið varðar. Þegar líður að lokum skipulagsvinnunar eru niðurstöður úr miðasjá, rýnihópum og samráðsfundum notaðar til þess að móta endanlega tillögu að hverfisskipulagi.


Skapandi samráð miðar að því að gefa íbúum möguleika á að koma hugmyndum á framfæri

Vinnuferli 

Sex verkþættir hverfisskipulags

Gerð hverfisskipulags fyrir hvert hverfi er flókið verkefni sem skipt er í sex verkþætti. Fyrsti verkþátturinn er gerð verklýsingar þar sem staða hverfisins er greind og fyrirhugaðri skipulagsvinnu lýst. Annar verkþáttur er stefnumótun þar sem lögð eru fram drög að framtíðarsýn fyrir hvert hverfi. Skilmála- og tillögugerð fylgir þar á eftir en síðasti verkþátturinn er kynningar- og samþykktarferli. Nánari upplýsingar um verkþætti hverfisskipulagsins má finna til hliðar.

Vinna við hverfisskipulagið hófst 2013 á því að greina stöðu og visthæfi allra hverfa í borginni. Árið 2015 hófst svo vinna við fyrstu hverfisskipulögin í Árbæ, Breiðholti, Háleiti- Bústöðum og Hlíðum.  Stefnt er að því að öll hverfi borgarinnar hafi fengið hverfiskipulag 2024.

Verkþættir

  1. Verklýsing
  2. Stefnumótun
  3. Samráð
  4. Skilmálagerð
  5. Tillögugerð
  6. Kynningar- og samþykktarferli

Hvert hverfisskipulag er unnið af þverfaglegum ráðgjafahóp arkitekta, landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga og verkfræðinga

Visthæfi byggðar

Lykiláherslur vistvænna hverfa

Borgarumhverfi hefur mikil áhrif á heilsu, líðan og líf fólks. Markmið Reykjavíkurborgar um vistvæna byggð fela í sér að gera hverfi borgarinnar sjálfbærari og stuðla að auknum lífsgæðum íbúa. Öll hverfi borgarinnar hafa sína styrkleika, veikleika og sérkenni sem vinna þarf með þegar hverfin eru skipulögð með vistvænar áherslur í huga.  

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru skilgreindar sjö lykiláherslur við skipulag vistvænnar byggðar. Þessar lykiláherslur eru innleiddar í vinnu við hverfisskipulag allra hverfa borgarinnar. Nánar má kynna sér þessar lykiláherslur hér til hliðar.

Öll rótgróin hverfi koma til með að fá sitt eigið hverfisskipulag