Ártúnsholt
Árbær og Selás

Hverfisskipulag Reykjavíkur er nýtt skipulag sem tekur mið af óskum íbúa og er ætlað að gera hverfin sjálfbærari, vistvænni og meira heilsueflandi

Fleiri íbúðir! Fleiri leiksvæði! Fleiri bílastæði! More apartments! More Playgrounds! More Parking! hér eru uppi áform um að efla hverfismiðjuna með öflugri menningarstarfsemi og fallegu umhverfi. Ekki sem verst, ha? There are plans to strengthen the neighbourhood center By increasing culturally related activities and beautifying the environment, not bad ! Áfram fylkir! Go fylkir! Hér er gott að búa. Góðir grannar og ísbúð, hvað þarf maður meira ? It’s good to live here. Good neighbours and a ice-cream shop, what else could you need? úps! hér er þörf á gangstéttar- viðgerðum OOPS! the side- walk here needs repairs Svei mér þá, hér vantar gangbraut! Og kannksi listaverk í almennings- rýmið! we need a cross- walk here! and maybe artwork for the public space Mætti ekki byggja nokkrar íbúðir hér! Couldn’t they build some apart -ments here ! LOFT- OG HLJÓÐ- MENGUN Air and sound pollution Bættar Almennings- samgöngur! Better Public Transpor -tation

Hvað er hverfiskipulag?

Hverfisskipulag er nýtt skipulagstæki sem byggir á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030. Því ætlað að stuðla að jákvæðri þróun Reykjavíkur, gera hverfi borgarinnar vistvænni og sjálfbærari og þróa byggðina í takt við breyttar áherslur í samfélaginu.

Hverfisskipulagið leysir af hólmi eldri deiliskipulagsáætlanir, sem margar hverjar eru orðnar úreltar, og byggir útfærsla þess á vandaðri greiningu og miklu og góðu samráði. Öll hverfi borgarinnar munu á endanum fá sitt hverfisskipulag sem tekur mið af styrkleikum þeirra og veikleikum.

Hverfisskipulag stuðlar að sjálfbærari, vistvænni og meira heilsueflandi hverfum

Hver er ávinningurinn ?

Með tilkomu hverfisskipulags verður mun einfaldara fyrir íbúa að gera breytingar á fasteignum sínum en áður. Einfaldara verður að byggja ­kvisti, koma fyrir nýjum svölum eða stækka húsnæði með viðbyggingum og fjölga íbúðum.

Víða verður hægt að innrétta aukaíbúðir með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúrum í litlar íbúðir. Þessar aukaíbúðir eru hugsaðar fyrir fjölskyldumeðlimi eða til útleigu. Óheimilt að selja þær frá aðalíbúð enda má sameina þær aðalíbúð aftur ef eigendur óska þess.

Þannig geta heimildir hverfisskipulagsins aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum, t.d. í grónum hverfum með mörgum einbýlis- og raðhúsum, en gert er ráð fyrir að fjölgunin þeirra verði hægfara. Nýting innviða, s.s. grunnskóla, ræðst af íbúasamsetningu og útreikningar Hagfræðistofnunar HÍ gefa til kynna að ná megi fram umtalsverðu hagræði í rekstri þeirra með jafnari íbúasamsetningu hverfa.

Byggingarskilmálar fyrir sérbýlishús

Myndin sýnir hvernig byggja má við sérbýlishús. Nýir skilmálar eiga að einfalda málsmeðferð við breytingar.

Stækkun fjölbýlis

Dæmi um viðbyggingu ofan á fjölbýlishúsi með nýjum íbúðum ásamt lyftum sem tengdar eru við allar hæðir til að bæta aðgengi.

Mun einfaldara verður fyrir íbúa að gera ýmsar breytingar á eignum sínum, til dæmis að koma fyrir kvisti eða svölum, byggja við eða breyta húsum

Hvernig er hverfisskipulagið unnið ?

Hverfisskipulagið er unnið í nánu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila. Hópur skipulagssérfræðinga leggur drög að framtíðarsýn fyrir hvern borgar­hluta og hverfin sem honum tilheyra, sem síðan eru rýnd til gagns af viðhorfshópum íbúa úr þessum hverfum.

Allar hugmyndir eru skráðar í miðlægan gagnagrunn, svokallaða miðasjá, sem tekið er mið af þegar tillaga að hverfisskipulagi er mótuð

Kynning á tillögum fyrir:

Ártúnsholt

Helstu áherslur hverfisskipulags Ártúnsholts miða að því að gera hverfið sjálfbærara og vistvænna, fjölga minni íbúðum til að jafna aldursdreifingu, styrkja nærþjónustu og bæta tengingar við nærliggjandi hverfi.

Þróun byggðar

Stefnt er að því að fjölga litlum og meðalstórum íbúðum á Ártúnsholti um allt að 330 til að vega upp á móti háu hlutfalli einbýlis- og raðhúsa í hverfinu. Gert er ráð fyrir að þessi fjölgun verði hægfara og á löngum tíma.

 • Fjölga á íbúðum í öllu hverfinu með því að heimila aukaíbúðir í stórum sérbýlishúsum. Þær eru fyrst og fremst fyrir fjölskyldumeðlimi eða til útleigu. Óheimilt verður að selja þær frá aðalíbúð og má sameina þær aðalíbúð síðar ef eigendur óska þess.

  Stefnt er að blöndun byggðar við Nethyl og Stangarhyl þar sem veittar verða heimildir fyrir viðbyggingum og/eða ofanábyggingum. Þá verða nýbyggingar heimilaðar við Birtingakvísl.

Fjölbreytt framboð íbúða stuðlar að betra jafnvægi í hverfinu og hefur jákvæð áhrif á nýtingu leik- og grunnskóla í hverfinu og nærþjónustu. Smærri íbúðir henta vel fyrir ungar fjölskyldur með börn á grunn- eða leikskólaaldri, sem og þá sem vilja minnka við sig innan hverfisins.

Skipulagstillögur fyrir Ártúnsholt
Hverfisskipulagsuppdráttur fyrir Ártúnsholt
Bók 1: Greinargerð og stefna
Bók 2: Skipulagsskilmálar
Fylgiskjöl fyrir borgarhlutann
Verklýsing fyrir borgarhlutann
Skýrsla um íbúaþátttöku
Byggðakönnun

Hugmynd að framtíðaruppbyggingu fyrir Nethyl/Stangarhyl

Blönduð byggð með áherslu á íbúðir á efri hæðum og verslun og þjónustu á neðri hæðum, ásamt bættri lóðahönnun og fegrun umhverfis.

Stefnt er að blöndun byggðar í Hyljunum með íbúðum á efri hæðum og verslun og þjónustu á neðri hæðum

Samgöngur og þjónusta

Nærþjónusta fyrir Ártúnsholt er skilgreind við bensínstöð við Straum og við Nethyl/Stangarhyl, ásamt annarri þjónustu og atvinnustarfsemi. Heimildir eru einnig fyrir léttri atvinnustarfsemi í íbúðabyggð.

 • Sérstök áhersla er lögð á endurskilgreiningu og endurhönnun götunnar Strengs. Hún verður borgargata með hverfistorgi til móts við Árkvörn. Þar er m.a. fyrirhuguð ný grenndarstöð, strætóstoppistöð, leik- og setrými, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og jafnvel stæði fyrir deilibíla.

  Umferð gangandi og hjólandi vegfarenda verður aðskilin á helstu stofnleiðum. Áfram verður góð tenging við stofnbrautir og almenningssamgöngur.

Árbæjarsafn og menningarminjar við Rafstöðvarveg verða tengdar betur við hverfið með merktri leið milli safnsins og gömlu rafstöðvarinnar. Aðgengi að Elliðaárdal og aðliggjandi hverfum verður einnig bætt, m.a. með nýrri göngubrú yfir Vesturlandsveg.

Vistvænna Ártúnsholt í framtíðinni

Vistvænna og líflegra Ártúnsholt í framtíðinni þar sem Strengur hefur verið gerður að borgargötu með hverfistorgi, grenndarstöð, biðstöð almenningsvagna, stæðum fyrir deilibíla og hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Teikning: Pétur Stefánsson.

Grænar áherslur

Styrkja á græn svæði á Ártúnsholti til að þau nýtist íbúum betur og auka trjágróður sem fellur vel að stefnumörkun um aukna kolefnisbindingu.

 • Aðstæður til notkunar vistvænna orkugjafa verða bættar með hleðslustöðvum fyrir rafbíla á borgarlandi.

  Heimilað verður að byggja sorpskýli á lóðum í stað eldri sorpgeymslna, til að auðvelda flokkun úrgangs og til að hjálpa íbúum að bæta visthæfi eldri mannvirkja.

Viðkvæmt lífríki Elliðaárdalsins verður verndað fyrir mengun frá byggðinni og settir skilmálar og leiðbeiningar um meðhöndlun ofanvatns í hverfinu. Þá verður búið í haginn fyrir borgarbúskap og matjurtarækt á borgarlandi og lóðum í takt við áherslur um sjálfbærni og vistvænni hverfi.

Búið verður í haginn fyrir matjurtarækt og borgarbúskap bæði á borgarlandi og lóðum

Kynning á tillögum fyrir:

Árbæ

Áherslur hverfisskipulags fyrir Árbæ miða að því að fjölga íbúðum til að styrkja þjónustuna í hverfiskjarnanum sem jafnframt er meginkjarni borgarhlutans, gera hverfið sjálfbærara og vistvænna og bæta tengingar við nærliggjandi hverfi.

Þróun byggðar

Stefnt er að því að fjölga íbúðum í hverfinu um allt að 680 til að styrkja miðju borgarhlutans og bæta þjónustuframboð þannig að íbúar geti sótt helstu nauðsynjar í göngufæri frá heimilum sínum. Þessi fjölgun verður hægfara og á löngum tíma.

 • Fjölga á íbúðum með viðbyggingum og ofanábyggingum í hverfiskjarna við Ásinn og nýbyggingum við Rofabæ og Hraunbæ. Veitt verður heimild fyrir aukaíbúð í stórum sérbýlishúsum og hækkun fjölbýlishúsa um eina hæð, samhliða því að koma fyrir lyftu.

  Stefnt er að því að reisa fjölbýlishús austast í hverfinu á milli Hraunbæjar og Bæjarháls og íbúðabyggð vestast í hverfinu, á þróunarsvæði milli Höfðabakka og Rofabæjar/Ystabæjar.
Aukaíbúðir eru fyrst og fremst fyrir fjölskyldumeðlimi eða til útleigu. Óheimilt verður að selja þær frá aðalíbúð og má sameina þær aðalíbúð síðar ef eigendur óska þess.
Skipulagstillögur fyrir Árbæ
Hverfisskipulagsuppdráttur fyrir Árbæ
Bók 1: Greinargerð og stefna
Bók 2: Skipulagsskilmálar
Fylgiskjöl fyrir borgarhlutann
Verklýsing fyrir borgarhlutann
Skýrsla um íbúaþátttöku
Byggðakönnun

Möguleg þróun miðsvæðisins

Ásinn verður skilgreindur sem meginverslunarkjarni í borgarhlutanum með þjónustu á jarðhæðum og íbúðum á efri hæðum.

Almenningsrými verða efld með borgargötum og hverfistorgum við Hraunbæ, Rofabæ og Árbæjarkirkju

Samgöngur og þjónusta

Nærþjónusta fyrir hverfið verður í hverfismiðjunni, Ásnum, sem er skilgreind sem meginverslunarkjarni í borgarhlutanum. Einnig verður skilgreint svæði fyrir nærþjónustu við Rofabæ 7–9 og 37–39. Þá verða heimildir fyrir létta starfsemi innan íbúðabyggðar rýmkaðar sem eykur mannlíf í hverfum og fjölgar atvinnutækifærum.

 • Almenningsrými verða efld, m.a. með hverfistorgum við Hraunbæ, Rofabæ og Árbæjarkirkju. Bæjarbraut, Rofabær og hluti Hraunbæjar verða borgargötur.

  Styrkja á göngu- og hjólaleiðir í hverfinu og tengingar við nærliggjandi hverfi, græn svæði og Elliðaárdalinn.

Við hverfistorgin eru fyrirhugaðar hleðslustöðvar fyrir rafbíla, möguleg stæði fyrir deilibíla, grenndarstöðvar og biðstöðvar fyrir almenningsvagna, en stefnt er að því að auka hlut almenningssamgangna með aukinni tíðni og bættri þjónustu.

Vistvænni Árbær í framtíðinni

Rofabær og Bæjarháls sem borgargötur með hverfistorgum, grenndarstöðvum, strætóstoppistöðvum, hleðslustöðvum rafbíla og stæðum fyrir deilibíla.
Teikning: Pétur Stefánsson.

Grænar áherslur

Bæta á landnýtingu með því að heimila íbúðabyggð á þróunarsvæðum og fylgja eftir stefnu um aukna kolefnisbindingu með meiri trjágróðri í hverfinu.

 • Viðkvæmt lífríki Elliðaárdalsins verður verndað fyrir mengun frá byggðinni og búið í haginn fyrir matjurtarækt og borgarbúskap, bæði á borgarlandi og lóðum.

  Auka á flokkun úrgangs, auðvelda flokkun við dyr og bæta aðstæður til flokkunar með grenndarstöð við Bæjarbraut.

Bæta á aðstæður til notkunar vistvænna orkugjafa með hleðslustöðvum fyrir rafbíla í borgarlandinu, s.s. við skóla og íþróttamannvirki.

Veitt verður heimild fyrir hækkun fjölbýlishúsa um eina hæð samhliða því að koma fyrir lyftu

Kynning á tillögum fyrir:

Selás

Áherslur hverfisskipulags í Selási miða að því að gera hverfið sjálfbærara og vistvænna og auka gæði byggðarinnar með því að fjölga íbúðum til að auka íbúaþéttleika, styrkja nærþjónustu í hverfinu og bæta tengingar við meginkjarna borgarhlutans í Árbæ.

Þróun byggðar

Stefnt er að því að fjölga íbúðum í hverfinu um allt að 720 til að vega upp á móti háu hlutfalli einbýlis- og raðhúsa. Fjölgun íbúða verður hægfara og á löngum tíma.

 • Heimila á aukaíbúð í stórum sérbýlishúsum og leyfa hækkun fjölbýlishúsa í hverfinu um eina hæð, þar sem aðstæður leyfa, gegn skilyrði um að koma fyrir lyftu á sama tíma.

  Heimilt verður að þétta byggð við Selásbraut 98, fjarlægja eldra mannvirki og reisa 3–4 hæða byggingu með verslunum og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Þá er horft til nýrrar íbúðabyggðar vestan Selásbrautar á þróunarsvæði milli Vindáss og Brekknaáss.

Aukið framboð minni íbúða stuðlar að betra jafnvægi í hverfinu og hefur jákvæð áhrif á rekstur skóla, leikskóla og uppbyggingu nærþjónustu. Aukaíbúðir eru fyrst og fremst fyrir fjölskyldumeðlimi eða til útleigu. Óheimilt verður að selja þær frá aðalíbúð og má sameina þær síðar ef eigendur óska þess.

Skipulagstillögur fyrir Selás
Hverfisskipulagsuppdráttur fyrir Selás
Bók 1: Greinargerð og stefna
Bók 2: Skipulagsskilmálar
Fylgiskjöl fyrir borgarhlutann
Verklýsing fyrir borgarhlutann
Skýrsla um íbúaþátttöku
Byggðakönnun

Hverfiskjarni við Selásbraut

Möguleg útfærsla með þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum.

Selásbraut verður endurhönnuð sem borgargata með hverfistorgi og helstu þjónustu fyrir íbúa

Samgöngur og þjónusta

Gert er ráð fyrir að nærþjónusta byggist upp við Selásbraut 98. Þar verður blönduð byggð íbúða, atvinnulífs, verslunar og þjónustu. Þá verða heimildir skýrðar fyrir léttri starfsemi innan íbúðabyggðar, enda styður slík starfsemi við atvinnusköpun og mannlíf.

 • Selásbraut verður endurhönnuð sem borgargata með hverfistorgi og grenndarstöð, rafhleðslustöðvum, mögulegum deilibílastæðum og strætóstoppistöð.

  Tengja á þjónustukjarnann við göngu- og hjólastíga í hverfinu, borgargötu og hverfistorg, jafnframt því sem bæta á göngu- og hjólaleiðir að þjónustu og verslun í borgarhlutakjarnanum í Árbæ.

Stefnt er að aukinni tíðni og bættri þjónustu Strætó í samgöngum hverfisins. Göngu- og hjólastígar við Selásbraut, næst grunnskólanum, verða endurbættir. Þá eru áform um nýja göngu- og hjólastíga sunnan við hverfið, á mörkum hesthúsahverfisins, yfir í Elliðaárdal og nýjan göngustíg meðfram Suðurlandsvegi.

Vistvænni Selás

Vistvænna Seláshverfi í framtíðinni. Selásbraut verður borgargata með strætósamgöngum og hverfistorgi með helstu innviðum sem íbúar þurfa að sækja. Umhverfi götunnar verður fegrað með trjágróðri, bættri lýsingu, bekkjum og fleiru til að auka gæði byggðarinnar og hverfisins.
Teikning: Pétur Stefánsson.

Grænar áherslur

Almenningsrými eru víða í hverfinu og verður skerpt á sérkennum þeirra. Hljóðvarnir verða bættar með jarðvegsmönum eða öðrum hljóðvörnum meðfram Breiðholtsbraut, Suðurlandsvegi og Selásbraut, ásamt trjágróðri sem fegrar umhverfið og eykur skjól.

 • Landnýting verður aukin með íbúðabyggð á þróunarsvæðum og lífríki Elliðaárdalsins verndað fyrir mengun frá byggðinni.

  Stefnt er að aukinni flokkun úrgangs og verður núverandi grenndarstöð við Selásbraut fest í sessi og önnur byggð við Selásbrautina, suðaustan við Selásskóla.

Búa á í haginn fyrir borgarbúskap og matjurtaræktun og bæta aðstæður fyrir notkun vistvænna orkugjafa, s.s. með hraðhleðslustöðvum við Selásskóla og við hverfistorgið á Selásbraut.

Skerpt verður á sérkennum almenningsrýma og hljóðvarnir bættar meðfram aðliggjandi stofnbrautum

Allar upplýsingar á heimasíðu og í Hverfasjá

Heimasíðan hverfisskipulag.is er veigamikill þáttur hverfisskipulagsins ásamt Hverfasjá. Þar verður hægt að nálgast öll skipulagsgögn þegar fyrsta hverfisskipulagið hefur tekið gildi.

Einfalt verður að nálgast öll skipulagsgögn í Hverfasjá og á heima­síðunni

Leiðbeiningar hverfisskipulagsins

Ein af nýjungum hverfisskipulagsins eru leiðbeiningar um hugtök og efnis­atriði sem eru í skipulagsskilmálum hverfisskipulags. Þær verða aðgengilegar í Hverfasjánni strax og fyrsta hverfis­skipulagið hefur verið samþykkt. 

Leiðbeiningar hverfisskipulags eru nýjung í skipulagsmálum hérlendis og verða þær fylgiskjöl með öllum hverfisskipulagsáætlunum borgarinnar. Þær eru ekki tengdar einstökum hverfum eða skilmálaeiningum heldur eru algildar fyrir alla borgarhluta.

Leiðbeiningarnar eru skýringargögn með skýringarmyndum sem fylgja skal þegar skilmálar eru nýttir.

Leiðbeiningar hverfisskipulagsins eru algildar fyrir alla borgarhluta og öll hverfi